Samráð, ekki "pissukeppni"

Eitt af því sem setti sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu í gríðarlegan vanda í aðdraganda og kjölfar bankahrunsins, var gengdarlaus samkeppni þeirra um úthlutun og framboð lóða. Ekkert samráð, og þegar upp var staðið þurftu þau ekki einasta að taka við hundruðum lóða aftur, heldur líka að endurgreiða þær með verðbótum eins og lög mæla fyrir um. Vegna þessa láku út úr sveitarsjóðum hundruðir milljóna og í sumum tifellum milljarðar. Þessa peninga hefði verið hægt að nota nú þegar kreppir að.

Auk þess leiddi þessi samkeppni til þess að hundruðir ef ekki þúsund íbúðir umfram þörf voru byggðar, og víða sjáum við þess merki að heilu göturnar standi auðar.

Bankarnir kynntu svo auðvitað undir með "ódýru lánsfé", fjölskyldur og fyrirtæki sitja síðan eftir með sárt ennið, forsendurnar sem þeim voru gefnar reyndust í besta falli óáreiðanlegar, í sumum tilfellum óábyrgar.

En spurningin hlýtur að vera, frá sjónarhóli sveitarfélaganna, hvernig komum við í veg fyrir að þetta endurtaki sig. Að "pissukeppni" sveitarfélaganna byrji ekki aftur þegar hagur þeirra vænkast ?

Ég tel að það sé löngu tímabært að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafi sameiginlega stefnu og markmið í skipulagsmálum. Það mætti gera með sameiginlegu skipulagsráði höfuðborgarsvæðisins, sem hefði meiri vigt  heldur en núverandi samvinnunefnd. Slíkt ráð ætti að geta verið öryggisventill fyrir öll sveitarfélögin og geta hindrað að ekki sé farið fram með offari, án tillits til hinna. Slík samvinna gæti svo hæglega verið undanfari aukinnar samvinnu á fleiri sviðum, sem aftur gæti leitt til betri nýtingar fjármuna, þ.a. skattpeningar íbúanna séu nýttir til þeirra verka sem eru brýnust fyrir þá.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Guðjónsson

Mikilvægasta verkefni þjóðfélagsins er að leggja niður sveitarfélögin eins og við þekkjum þau. Þetta er rándýrt , ónýtt stig fullt að millistjórnendum yfir engu.

Hér á skipulag ríkisins að skipuleggja byggingarland ( ef þörf er á ), borgararnir eiga að reka skóla  og sorphirðu í skólasamlögum. Endurvekja á sjúkrasamlög og virkja almannatryggingar aftur þannig að þær sjái um þau félagsmál sem sveitarfélögin hafa sinnt svo illa. Barnavernd gæti tengst skólasamlögum.

Íslensk fyrirtæki standa ekki undir þeirri dulbúnu atvinnubótavinnu sem öll stjórnsýsla sveitarfélaganna er og heimilin gera það ekki heldur. Hvergi er skattfé borgaranna eins illa varið og af forkólfum sveitarfélaganna. Í Reykjavík eru t.d. breiður af vinum og kunningjum hinnar ónýtu stjórnmálastéttar í störfum millistjórnenda með milljón plús í kaup auk greiðslu á ferðum í fríið og fyrir einkaneysluna.

Þá lærist lýðræðishallinn og spillingin á sveitarstjórnarstiginu en er svo flutt þaðan yfir á löggjafarþingið. Þess vegna hafa þingmenn almennt enga hugmynd um frönsku stjórnarbyltinguna því þeir koma úr sveitarstjórnunum eftir að hafa sett þau á hausinn. 

Einar Guðjónsson, 16.2.2010 kl. 18:45

2 identicon

Það þarf að sameina sveitarfélögin, það eru alltof margir að vasast í þessu sama.

Lúðvík Karl Friðriksson (IP-tala skráð) 16.2.2010 kl. 20:39

3 Smámynd: Ólafur Þór Gunnarsson

Einar þarna nefnirðu nokkur atriði sem eru allrar athygli verð.  Ég tel hins vegar að frekar en að auka á miðstýringu, ætti að minnka hana með því að flytja verkefni til sveitarfélaga. Sveitarfélög snúast um nærþjónustu, og ég tel að þau eigi að sjá sóma sinn í að sinna henni vel. Vandinn með kostnað er frekar dæmi um að einingarnar séu of margar, t.a.m. sé ég fyrir mér að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu gætu verið 2-3 frekar en 8 eins og nú er. Í stærri sveitarfélögum þarf hins vegar að vera algerlega á hreinu að stjórnsýslan sé gegnsæ, málefnaleg og jafnræðis sé gætt, þ.e. einkavinavæðingunni sagt stríð á hendur.

Lúðvík ég vísa til fyrra svarsins varðandi þína ábendingu.

Ólafur Þór Gunnarsson, 16.2.2010 kl. 22:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband