Ein leið til að auka framboð á félagslegu húsnæði og jafnvel skapa einhver störf.

Í dag var bæjarstjórnarfundur í Kópavogi. Ágætisfundur um margt, m.a. rætt um tvöföldun Suðurlandsvegar, skipulagsmál, velferðarmál og húsnæðismál. VG lögðu fram tillögu í húsnæðismálum, sem var samþykkt samhljóða. Tillagan gengur út á að meta hvort hægt verði að leggja húsnæðisnefnd til meira fé við endurskoðun fjárhagsáætlunar, en tillagan hljóðar svo:

 

"Bæjarstjórn Kópavogs samþykkir að við endurskoðun fjárhagsáætlunar þessa árs verði hugað sérstaklega að því hvort svigrúm verði til að auka framlag til húsnæðisnefndar vegna íbúðakaupa á árinu." 

 

Í greinargerð sem fylgir er svo komið inn á með hvaða hætti og hvernig þetta væri  hægt.

 

"Gera má ráð fyrir að eftirspurn eftir félagslegu húsnæði muni fara vaxandi á árinu, og mikilvægt að Kópavogsbær bregðist við því með öllum tiltækum ráðum. Á sama hátt gera spár ráð fyrir að húsnæðisverð muni fara lækkandi á árinu, og því gætu verið ákjósanleg kauptækifæri fyrir bæinn sem mikilvægt er að bregðast við. Um þessar mundir eru á annað hundrað  fullkláraðra íbúða í Kópavogi (samkvæmt nýlegri samantekt), og líklegt að kaupandi sem vildi og gæti fest kaup á nokkrum íbúðum í einu, t.d. með útboði á kaupum, fengi hagstæð verð.

 

Ólafur Þór Gunnarsson"

 

 

Auðvitað væri einnig hægt að hugsa sér að bærinn keypti einnig íbúðir á seinni byggingarstigum og skapaði þannig vinnu við að fullgera þær. Iðnaðarmenn hafa kvartað undan verkefna skorti og þetta gæti verið ein leið til að bæta þar úr, ekki bara í Kópavogi heldur jafnvel víðar á landinu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Sæll Ólafur

 Það ætti nú ekki að vera neitt sérstaklega frlumlegt að kaupa félagslegar íbúðir nú, þegar verð fer lækkandi. Kópavogskaupstaður þarf að borga 10%  og fær 90% lán frá Íbúðalánasjóði. Þó að um 100 íbúðir sé nú óseldar í Kópavogi þá hefur gengið þokkalega að selja að undanförnu.

Vandamálið er að félagslegum íbúðum er úthlutað, en lítið er um endurmat á þörf íbúanna. Þannig er ekki alltaf verið að hjálpa þeim sem minnst mega sín.

 Fyrir síðustu Alþingiskosningar komstu með tillögur að atvinnusköpun. Hvernig standa þau mál nú?

Sigurður Þorsteinsson, 24.2.2010 kl. 11:31

2 Smámynd: Kjartan Sigurgeirsson

Það er alveg skínandi að VG skuli, þegar alónýt ríkisstjórn hefur ekki  reynt að bjarga þeim hundruðum heimila sem eru að liðast í sundur vegna ofurskulda, atvinnuleysis og lélegra kjara alþýðunnar, vilja bjarga þeim sem eru komnir á vonarvöl.

Hefði ekki verið betra að fara eftir máltækinu "Á skal að ósi stemma"? Sennilega er þó betra að grípa inn í þegar í óefnið er komið en alls ekki.  Hitt hefði bara verið ódýrara fyrir þjóðfélagið á allan hátt, svo ekki sé talað um þá mannlegu harmleiki sem hefði mátt spara, hefði verið við völd ríkisstjórn sem lætur sig þegnana eitthvers varða.

Kjartan Sigurgeirsson, 24.2.2010 kl. 13:40

3 Smámynd: Ólafur Þór Gunnarsson

Sælir Sigurður og Kjartan ogtakk fyrir athugasemdirnar.

Það er nú þannig Sigurður að jafnvel þó hugmynd sé ekki frumleg eða ný, þá þarf einhvern vilja til að framkvæma hana, og nú þarf slíkan vilja. Vissulega er það gleðilegt að Kópavogsbær vilji skoða þetta nú. Þetta err athyglisverð ábending með þörf eða ekki þörf fyrir húsnæði.  Ég tel að við úthlutun sé ekki nokkur vafi á að þeir sem fá séu í þörf. Það er erfitt, þegar um er að ræða einstaklinga í miklum vanda, jafnvel á götunni að bjóða úrræði sem eiga svo að standa í stuttan tíma. Hins vegar mætti segja að eftir tiltekinn tíma, t.d. 3-5 ár færi fram endurskoðun á þörf, slíkt væri inni í samningi í upphafi, og þá metið hvort að aðstæður hefðu breyst þannig að aðstoðar væri ekki þörf, eða viðkomandi jafnvel gefinn kostur á að yfirtaka skuldbindingar vegna íbúðar. Ef íbúð "losnaði" með þeim hætti ætti þá bærinn að geta keypt aðra inn í kerfið. Ég tel hins vegar varhugavert að setja upp kerfi sem með einhverjum slíkum hætti gæti vísað fólki á dyr eftir stuttan tíma, t.d. eftir að fjölskylda hefði náð að róta sig og börn í skólum osfrv. Þá væri hitt betra að hægt væri að endurmeta stöðuna, en jafnframt tryggja að viðkomandi hefði áfram húsnæði sem hann réði við að halda.

Hvað varðar tillögur í atvinnusköpun þá hafa einhverjar þeirra komið til framkvæmda, verðbólga hefur lækkað, vextir hafa lækkað. Auðvitað má betur ef duga skal í þeim efnum, en við skulum muna að stýrivextir voru 18% þegar ríkisstjórnin tók við, og verðbólga á árinu 2008 var um 18%. Því miður er ekki enn farið að greiða niður rafmagn til innlendrar matvælaframleiðslu, þó að tillögur þar um hafi verið í skoðun. Tillögur um aukningu í vinnslu afla innanlands hafa mætt mikilli andstöðu útgerðarmanna. Það hefur verið í skoðun í heilbrigðisráðuneytinu og hjá einhverjum heilbrigðisstofnunum að taka vökvaframleiðslu inn í landið. Áhersla á heimahjúkrun og heimaþjónustu hefur aukist, og framlög til eirra þátta hækkuðu á milli ára þrátt fyrir niðurskurð annars staðar í heilbrigðiskerfinu. Nú er fyrirséð að fjölmörg ný störf munu skapast í ferðaþjónustu á komandi sumri, m.a. í s.k. grænni ferðaþjónustu. Mér er ekki kunnugt um hve mikið hefur verið um að menn fari í endurbætur  á íbúðarhúsnæði eða öðru húsnæði beinlínis vegna endurgreiðslu á vsk, en eitthvað hefur verið um það.

Það er athyglisvert Kristján að þú skulir nefna að vandinn sem nú er uppi sé tilkominn vegna þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr.  Ég hef hingað til staðið í þeirri meiningu að núverandi ríkisstjórn hefði tekið við þrotabúi fyrri stjórna og væri að reyna að vinna sig út úr vandanum.  Sú tillaga sem hér um ræðir er til þess fallin að auðvelda bænum að aðstoða fleiri, og ég tel það vera af hinu góða. Stjórn sem "hefði látið sig þegnana einhvers varða" hefði tæplega talið þeim trú um að best væri að gefa bankana, lækka skatta og hvetja fólk til að taka lán í erlendri mynt, eða hvað ?

Ólafur Þór Gunnarsson, 24.2.2010 kl. 19:02

4 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Ólafur, það eru til margar leiðir til þess að örva atvinnulíf sem hefur orðið fyrir áfalli. Því miður hefur nánast öll orka ríkisstjórnarinnar farið í Icesave og aðildarumsókn í ESB. Það er allt í lagi að gera mistök og ef stjórnvöld hefðu aðeins viðurkennt mistök í fyrsta Icesavesamningum þá hefði verið svo miklu auðveldara að ljúka ásættanlegum samningi í annarri tilraun. Steingrímur Hermannsson hafði manndóm til þess að viðurkenna mistök og fékk bara virðingu fyrir. Umsókn um inngöngu í ESB er tímaskekkja.

Stjórnmálamenn þurfa ekki að vera sérfræðingar á öllum sviðum. Læknir þarf þannig ekki að vera sérfræðingur á slíku sviði. Ég minnist þess þó að þú hafir getið um möguleika á framleiðslu á blóðvökva ef ég man rétt, sem mér fannst mjög áhugavert dæmi. Er slíkt  dæmi í skoðun?

Með 15 þúsund manns atvinnulausa, erum við með stórt vandamál. Sveitarfélögin verða að koma inn í þetta dæmi af meiri alvöru. Þau eru nær fólkinu en ríkið. Á norrænni ráðstefnu um raunhæfar leiðir til þess að örva atvinnulífið til þess að skapa störf, sagði einn fyrirlesaranna sem aðstoðað hafði fjölda sveitarfélaga varðandi  atvinnuuppbygginu, að 97% fólks vildi vera á þægindasviði en 3% á virknisviði. Þeir aðilar innan sveitarfélaganna sem ynnu að þessum þáttum innan sveitarfélaganna yrðu að vera fólk af þessu virknisviði ef eitthvað ætti að gerast.

Ég hef lesið punkta frá atvinnunefndum frá Kópavogsbæ, og ég hafði á tilfinningunni að ég hefði komist í fundargerð frá saumaklúbbi. Þegar við erum að tala um niðurbrot fjölskyldna þá er slíkt óásættanlegt, og ber að taka á án tepruskaps. Einfaldar alsherjarlausnir eins og álver, bara vegna þess að menn hafa ekki nennu til þess að gagna í raunhæf verkefni er óásættanleg leið.

Á þessu máli verður ekki tekið með því að líta í baksýnisspegilinn, eða með því að kenna einhverjum öðrum um. Það er komi tími til þess að stjórnmálamenn setji hagsmuni kjósenda ofar sínum.

Sigurður Þorsteinsson, 24.2.2010 kl. 21:59

5 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Hvað er græn ferðaþjónusta ? Labba menn um landið eða synda hingað og svífa síðan yfir sverðinum án þess að snerta hann. Ég er fylgjandi ferðaþjónustu en hún verður aldrei græn. Hvað mikið grænt varð til dæmis við allan þann útlblástur tækjabúnaðar sem varð til við björgun tveggja ferðamanna af Langjökli fyrir skömmu og hvað er mikill kolefnislosun frá einni fullhlaðinni flugvél af ferðamönnum. Græn verður því ferðaþjónusta seint.

Jón Aðalsteinn Jónsson, 24.2.2010 kl. 22:49

6 Smámynd: Kjartan Sigurgeirsson

Ég þakka þér Ólafur fyrir svarið.  Það er ef til vill ekki sanngjarnt að láta þig bera ábyrgð á getuleysi ríkisstjórnarinnar, en svarið er í mínum huga jafn vitlaust og meðferð þín á nafni mínu.  Ég heiti Kjartan ekki Kristján, og þarna veður uppi bullið úr talsmönnum ríkisstjórnarinnar, þegar minnst er á getuleysi þeirra er viðkvæðið að þetta sé svo ofsalega erfitt, það var svo vond ríkisstjórn á undan, því spyr ég til hvers var þetta fólk að bjóðast til að taka við ef vandinn var svo langt umfram þeirra getu? Bjóst það við að hægt væri að fá einhvern annan í verkið eða að hægt væri að hundsa neyð  þjóðarinnar með þessa skjaldborg um sjálft sig? Að það hafi verið aðrir sem komu okkur á kaldan klaka, hljómar svipað og börn í sandkassa, þau bera sjaldan ábyrgð, það voru hinir sem komu þessu af stað.  Af hverju voru þeir þá ekki látnir þrífa eftir sig? það er ekki nóg að hafa bara annan sakaflokkinn í því. 

Þetta með að "gefa" bankana; ef við skoðum hvaða banki var gefinn og hver gaf hann.  Ég man ekki betur en að eini bankinn sem var gefinn hafi verið Útvegsbankinn sálugi, eftir að ríkissjóður hafði dælt í hann hundruðum milljóna var hann gefinn þremur illa stæðum bönkum og þeim komið til bjargar, ég man ekki alveg hver framkvæmdi þann verknað, manst þú það? Ég veit svo sem ekki með Landsbanka og Búnaðarbanka, en  mér segir svo hugur um að ekki hafi komið mörg hærri tilboð í þá.  Ég minnist þess ekki að það hafi gengið út boð frá ríkisstjórninni um að taka erlend lán, enda eru þau ekki eina meinsemdin.

Ég veit dæmi um að ungt fólk sem hóf búskap á árinu 2008, keypti sér íbúð, fékk vegna nýlokins náms eitthvað hærra lánshlutfall en gekk og gerðist, situr nú uppi með lán vísitölutryggð húsnæðislán, sem eru langt yfir því sem íbúðin kostaði þau og verðmæti eignarinnar langt undir upphaflegu kaupverði hvað þá þeim lánum sem á henni hvíla.  Þessi fjölskylda er við það að komast í greiðsluþrot.  Hefði verið farin leið framsóknar, 20% leiðrétting strax og reynt að hægja á spuna vísitölu neysluverðs í stað þess að ýta undir hækkun verðlags með eilífum hækkunum neysluskatta, væri þessi fjölskylda eflaust allt öðru vísi stödd í dag en raun ber vitni. Ég vona að mér verði fyrirgefið á dómsdegi að hafa tekið undir með framsóknarmönnum.  Þannig er nú umhyggja "alþýðuflokkanna" fyrir alþýðunni.

Kjartan Sigurgeirsson, 25.2.2010 kl. 09:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband