24.3.2009 | 23:08
Hannes, fyrrverandi bankaráðsmaður, ráðleggur þjóðinni.
Í opnu Morgunblaðsins í dag er grein eftir fyrrverandi bankaráðsmann Seðlabankans. Þar talar hann af nokkrum þjósti um núverandi seðlabankastjóra, forsætisráðherra, og fleiri sem honum virðist vera í nöp við.
Hann getur þess í engu að ábyrgðin á því hruni sem íslenska bankakerfið hefur lent í sé hans sjálfs. Nefnir að vísu neðanmáls setu sína í ráðinu öll árin sem skuldasöfnun þjóðarinnar jókst mest og óveðursský hrönnuðust upp en lætur hjá líða að nefna að honum datt ekki í hug að vara við, hvað þá reyna að grípa í taumana. Nei miklu frekar má segja að hann hafi hvatt til frekari þenslu, minna eftirlits og hrópað á þá sem vöruðu við sem úrtölumenn. Nú þykist þessi fyrrverandi bankaráðsmaður þess umkominn að segja þeim til sem reyna að slökkva eldana sem hann tók sjálfur þátt í að kveikja.
Það er ljóst að núverandi stjórnvöld þurfa ekki að vænta gagnlegra tillagna frá helstu hugsuðum Sjálfstæðismanna í efnahagsmálum. Þrátt fyrir að þeirra eigin nefndir hafi sagt að stefnan hafi ekki brugðist heldur fólkið, þá senda þeir í fremstu víglínu sama fólkið, með sömu hugmyndirnar. Það er þakkarvert að þeir skuli staðfesta með afgerandi hætti að úr þeirra ranni er einskis að vænta annars en stefnunnar sem leiddi okkur þangað sem við erum í dag. Vonandi halda forystumenn flokksins áfram að skrifa með þessum hætti, þjóðin veit þá hvað hún á að varast.
Athugasemdir
Hver tekur mark á frjálshyggjumanni sem vinnur hjá ríkinu?
Ingi (IP-tala skráð) 25.3.2009 kl. 00:53
Það er með ólíkindum að sjá og heyra hvernig þetta frjálshyggjulið reynir að firra sig ábyrgð sbr. Gunnlaug Jónsson í kastljósinu. Þeir byggðu upp kerfið og vissu að auðvitað voru alltaf til björgunarbátar sem skipstjórinn og áhöfnin réðu yfir gátu alltaf komist um borð í. Meira að segja ríkisstarfsmaðurinn Hannes Hólmsteinn átti Kjartan Gunnarsson að, með litla gúmmítuðru.
Þorsteinn Ólafsson (IP-tala skráð) 25.3.2009 kl. 01:05
Þöggun og einelti! Eru þetta þín aðalsmerki í stjórnmálum? Hefur HHG ekki rétt á því að tjá sínar skoðanir eins og aðrir. Hvað sem segja má um Seðlabankann þá hefur HHG jafnan lagt sig fram um að færa rök fyrir máli sínu. Það er allt í lagi að vera ósammála, en þöggun finnst mér leiðinlegt innlegg í umræðuna.
Smjerjarmur, 25.3.2009 kl. 05:07
Þú þarna smérhaus eða hvað þú ert, HHG hefur að sjálfsögðu leyfi til að leika fífl áfram eins og hann hefur gert um langa hríð. Mér væri meira að segja sama þó hann færi útí heim til að mæra kvótakerfi Framsóknar og andskotans í sjávarútvegi. Það eru nefnilega flestar þjóðir í heiminum búnar að átta sig á ruglinu og bullið er tekið sem dæmi um heimsku þessa ríkisrekna frjálshyggjupostula.
Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 25.3.2009 kl. 06:12
Óskiljanlegt að bæði Samfylking og Sjálfstæðisflokkur skuli hafa í fremstu víglínu sama fólkið. Fólk sem ætti að víkja.
EE elle (IP-tala skráð) 25.3.2009 kl. 11:50
Hannes er sérvitur nokkuð og er kannski ekki heppilegur talsmaður fyrir sjálfstæðisflokkinn,hann er að tala fyrir sjálfan sig aðallega.
Hörður H. (IP-tala skráð) 25.3.2009 kl. 14:53
Hef aldrei skilið Hannes að liggja í ríkisjötunni sem hann hatar. En það er víst hin sanna frjálhyggja.
Finnur Bárðarson, 25.3.2009 kl. 17:54
Þakka athugasemdir hér að ofan. Ef um þöggun og einelti af minni hálfu væri að ræða, hefði ég tæplega verið að skrifa um Hannes. Mér finnst hins vegar afar mikilvægt að setja í samhengi hvað hann skrifar um og koma því á framfæri að hugmyndir hans hafa ekkert breyst, og ítreka að með því dregur hann ákveðin skil milli sín og þeirra sem vilja breytingar í samfélaginu.
Ólafur Þór Gunnarsson, 25.3.2009 kl. 18:10
Ólafur að stunda einelti ??? He he he. Ég vil heyra annan
Finnur Bárðarson, 25.3.2009 kl. 18:20
Núna vitum við allt það sem þú telur þig þurfa að segja um greinarhöfundinn Hannes og nokkuð augljósa vanþóknun þína á honum, sem setur þig að vísu í sömu stöðu með þína gagnrýni á honum og hann á þeim sem þú vilt hann meina að hann er í nöp við.
Hefuru ekki neinn áhuga að tjá þig efnislega um málfluttninginn hans og þá hvað var rangt, þas. ef þú telur hann hafað gert sig sekan um slíkt?
Guðmundur Gunnarsson (IP-tala skráð) 25.3.2009 kl. 19:43
Eins og talað úr mínum munni Ólafur.
Bergur Thorberg, 25.3.2009 kl. 20:40
Guðmundur biður um efnislega gagnrýni á málflutning Hannesar.
Þar er fyrst að nefna að hann kallar setningu í stöðu seðlabankastjóra ekki standast stjórnarskrá. Um þetta er deilt, en má benda á að bæði innan menntakerfisins, og heilbrigðiskerfisins hefur tíðkast í áratugi að setja fólk sem ekki er ríkisborgarar til verka, bæði til lengrí og skemmri tíma. Nægir þar að nefna fjöldan allann af kennurum í æðri menntastofnunum og mikinn fjölda heilbrigðisstarfsmanna af erlendum uppruna. Slíkt hefur í gegnum tíðina gert Íslendingum kleyft að nýta sér þekkingu og reynslu erlendis frá og ekkert óeðlilegt að fjármálageirinn geri slíkt hið sama. Ég tek fram að hér er ég ekki að tala um hefðbundinn erlendann vinnukraft heldur menntaða einstaklinga sem setið hafa í stöðum sem alla jafna eru skipaðar af framkvæmdavaldinu beint. Ég minnist þess ekki (en menn leiðrétta mig ef rangt er) að Hannes eða aðrir framámenn í Sjálfstæðisflokknum hafi áður gert sérstakar athugasemdir við slíkar ráðningar á forsendum uppruna einstaklinganna.
Hvað varðar gagnrýni Hannesar á persónu og persónueiginleika seðlabankastjóra ætla ég ekki að tjá mig um, tel þau ummæli segja meira um þann er ritar en þann sem ritað er um.
Í lok greinar sinnar kemur Hannes loks að því sem hann hefur að segja málefnalega, þ.e. að ekki hefði átt að setja Straum, Spron og Sparisjóðabankann í þrot, þ.e. ríkið yfirtaka rekstur þeirra. Þar fyrir færir hann aðeins þau rök að forsvarsmenn bankanna hafi "unnið af framúrskarandi dugnaði að því að tryggja framtíð þeirra". Engin önnur málefnaleg rök koma fram, og Hannes útskýrir ekki í hverju dugnaðurinn hafi falist, né heldur hvers vegna fyrirtækin sem þeir stýrðu voru komin í svo erfiða stöðu sem raun bar vitni. Forsvarsmenn þeirra allra höfðu sagt á opinberum vettvangi að staða þeirra væri góð og fyrirtækin ekki í hættu. Svipað heyrðist síðastliðið haust frá forráðamönnum stóru bankanna en við vitum hvernig fór. Án nokkurra málefnalegra raka af Hannesar hálfu, og í ljósi þeirrar sögu sem við höfum upplifað síðustu mánuði þarf engan að undra að mér þyki sérstakt að Hannes þykist þess umkominn að fella dóma um fólkið sem er nú að reyna að vinna úr stöðunni sem hann ásamt öðrum kom okkur í.
Ólafur Þór Gunnarsson, 25.3.2009 kl. 22:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.